Með ósk um geðheilbrigðari ár..
Gleðilegt nýtt ár kæru fylgjendur SÁTTar.
Við í SÁTT viljum hefja árið með jákvæðum fréttum af starfi undanfarinna mánuða.
Í aðdraganda Alþingskosninganna árið 2021 áttu stjórnarkonur SÁTTar, Elín Vigdís, Elísa Guðrún og Margrét, fundi með fulltrúum stjórnmálaflokkanna og ræddu um málaflokkinn. Þeir fundir voru undantekningarlaust afskaplega ganglegir og er það mat okkar í SÁTT að tekist hafi vel að útskýra fyrir frambjóðendum, hve brýnt væri að skilja og bæta meðferð, fræðslu og forvarnir varðandi átraskanir. Það gleður okkur í SÁTT að á Alþingi sitja upplýstari þingmenn í dag í málaflokknum, þvert á þingflokka. Þá höfum við átt í góðu samstarfi við þingmenn á síðasta kjörtímabili sem sjá má í þingsályktunartillögu um aðgerðir gegn átröskun (https://www.althingi.is/altext/151/s/1678.html).
Svandís Svavarsdóttir, fyrrv. heilbrigðisráðherra átti fund með Elínu Vigdísi í september 2021. Sá fundur var gagnlegur og ákvað ráðherra í kjölfar fundarins að skipa samráðshóp um þróun átröskunarmeðferða, fræðslu og forvarnir. Þann 13. desember 2021 var fyrsti fundur samráðshópsins í heilbrigðisráðuneytinu. Í hópnum eru sérfræðingar frá heilbrigðisráðuneyti, Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar, Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Átröskunarteymi Landspítalans á Kleppi og Elín Vigdís frá SÁTT. Það gefur auga leið að í mörg horn er að líta en ljóst að til mikils er að vinna til að styrkja stöðu þeirra sem veikjast og aðstandenda þeirra og bæta forvarnir, á höfuðborgarsvæðinu sem og á landsbyggðinni. Fyrsti fundurinn lofaði góðu og hlökkum við í SÁTT til að starfa með hópnum. Vonandi getur þetta samstarf leitt til úrbóta sem geti jafnvel verið fyrirmynd fyrir vinnu með aðrar geðraskanir.
Þær ánægjulegu fréttir eru að fjármagn hefur verið sett í að stytta biðlista á Landspítalanum (og þeir hafa hafa verið styttir umtalsvert) og viðbótarfjármagn til að bæta deildina. Teymið á Landspítalanum hefur auk þess beðið fulltrúa í SÁTT til að koma í notendaprófun vegna spennandi nýsköpunarverkefnis sem það er að þróa að þróa. Það er mat okkar í stjórninni að um mjög jákvæða þróun sé að ræða og erum við þakklát fyrir að fá að leggja okkar að mörkum.
SÁTT hefur fengið styrki frá Forvarnarsjóði Reykjavíkurborgar og frá Styrktarsjóði geðheilbrigðis hjá Geðhjálp. Við hlökkum til að nýta það fjármagn til góðra verka á árinu. Við munum deila frekari fréttum og verkefnum SÁTTar á árinu, s.s. af forvarnarverkefnum og málþingi SÁTTa sem haldið verður í maí nk. Okkur langar líka að taka fram að til okkar hafa fjölldi manns leitað, til að fá ráð varðandi meðferðir og úrræði. Oft eru aðstandendur sem leita ráða og við erum mjög glaðar að geta leiðbeint fólki eftir bestu getu (með því að vísa á sérfræðinga, teymið) og fleira. Þá er líka oft gott að grípa til þeirra góðu erinda, m.a. sem Styrkár Hallson var með á málþingi SÁTTar í maí 2021 (https://vimeo.com/555161146).
SÁTTarkveðja.